Kaldbakur

Helstu staðreyndir um Kaldbak.

Kaldbakur er 1,173 m hár og er hæstur tinda við norðanverðan Eyjafjörð, með útsýni allt austur á Langanes og inn á hálendi Íslands. Hann er talinn vera ein af orkustöðvum Íslands og ferð upp á hann er ógleymanleg lífsreynsla. Gönguferð upp á fjallið tekur um þrjár klukkustundir. Í vestanverðum toppi fjallsins er jökulskál og þar er snjór og ís allt árið um kring.

Á kolli Kaldbaks ber hæst vörðu sem hlaðin var af dönsku herforingjastjórninni árið 1914, en það er talinn vísir fyrstu landmælinga á Íslandi.

Kaldbakur:
Í fregnum og hjá skáldum

Veðurviti

Látra-Björg kvað um svikul og tvíráð veðrateikn á tindi Kaldbaks:
Vestanblika
kúfnum kalda
Kaldbak hleður;
sunnan kvika,
utanalda,
austan veður.

Apríldagur við Eyjafjörð

Nú fagnar landið hlýrri austanátt
og ærslast ljósir kettlingar á víði
en vetrarblómið, vorsins helsta prýði,
það viðrar sig á melnum, ósköp smátt.

Og sóley veit að sumar kemur brátt
í sverðinum þótt rætur hennar bíði
og heiðlóan sem hretin suður flýði
í haust er leið, að nýju syngur dátt.

En Kaldbakur með koll í skýjum hátt
er kleifur þótt á efstu brúnir hríði.
Af íbúum þar efra segir fátt.

Á beði sem er urðargrjótið grátt
á gamall refur nú í dauðastríði
og fjallið heyrir feigan andardrátt.

Davíð Hjálmar Haraldsson

Hliðskjálf Norðlendinga

Skammt frá Grenivík er fjallið Kaldbakur, það er hátt á fjórða þúsund fet á hæð, það gengur nálega í sjó fram og speglaðist í sænum, hrikalegt og tilkomumikið. Þegar Norðlendingar óttast ís, – hann er þeirra versti óvinur, – þá ganga þeir upp á Kaldbak til þess að skyggnast um eftir fjanda þeim, og óska honum norður og niður ef að eygist. Má svo að orði kveða að af Kaldbak sjáist yfir heim allan, þar er nokkurs konar Hliðskjálf þeirra Norðlendinga; þaðan sést yfir allan Skjálfanda, og afar langt á sæ út; Herðubreið, sem er suður undir Vatnajökli, öll Mývatnsfjöll, Eyjafjörður allur, Hnjóskadalur, Bárðardalur, Hörgárdalur og Svarfaðardalur o.s.frv. þaðan sést austur á Sléttu og vestur undir Horn.

Sig. Júl. Jóhannesson. (Ferðapistlar VIII. Dagskrá 26. nóv. 1898.)

Fjall Eyjafjarðar

Árið 2002 var alþjóðlegt ár fjalla. Þá var Herðubreið kosin þjóðarfjall Íslendinga og Kaldbakur sigraði í keppninni um fjall Eyjafjarðar eftir harða samkeppni við Kerlingu og Súlur.

Upphaf á kaflanum Blikavatn í bókinni Úr hugskoti eftir Hannes Pétursson. (Iðunn, Reykjavík 1976)

Út með Eyjafirði austanverðum liggur stór hvítabjörn fram á lappir sínar. Hann er úr grjóti og hryggur hans gnæfir í tæplega 1200 metra hæð yfir sjó. Einhver nefndi dýrið Kaldbak fyrir löngu. Kaldbakur tekur á sig hregg og svalvinda norðanáttar, og þess sér stað: túnin eru sæl með sig í Eyjafirði og lognið verður rjómaþykkt á innfirðinum. Í öllu logninu og veðurblíðunni heyrast hinir rödduðu samhljóðar í máli fólksins skýrar en annars væri!

Úr fórum Davíðs frá Fagraskógi

Það er þakkargerð mín á hverjum morgni að líta út yfir fjörðinn. Kaldbakur hefur alltaf verið mitt heilaga fjall, fjörðurinn mitt hálfa líf. Ég hef oft óskað þess, að allt mannkyn mætti sjá fegurð Eyjafjarðar, þegar hún er mest á vorin. Það er trú mín, að þá væri friður á jörð, menn auðugri af kærleika, og engin helsprengja til í veröldinni.
(Mælt mál bls. 132. Helgafell 1963)

Fegurð

Ég held að sólsetur við Kaldbak sé það fegursta sem ég hef séð frá Akureyri. Ég sofnaði frá þessari fegurð kvöld efir kvöld í júnímánuði ár hvert.

Hannes J. Magnússon: (Öldufall áranna, bls. 133. Æskan 1968.)